6.5.2007 | 14:59
Eurovision skúbb:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 00:12
Er blaðamennsku að fara aftur?
Þessi frétt á Vísi.is hlýtur að vera dæmi um þá allra verstu blaðamennsku sem ég hef séð. Þetta er afritað beint úr fréttatilkynningu, illa sett upp og í alla staði afkáralega og viðvaningslega gert.
Því miður er það svo að svona lagað er að verða æ algengari sjón á Vísi.is. Það virðist vera erfitt að finna metnaðarfulla og graða unga blaðamenn, en ef að þetta fær að sleppa í gegn, þá er mér öllum lokið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.4.2007 | 16:56
Mín skoðun á þjóðkirkjunni:
Tillaga um hjónavígslu samkynhneigðra felld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.4.2007 | 12:04
Allt sem er norðlenskt..
Ég vil eigna mér heiðurinn af því að hafa fyrst vakið máls á þessu, sjá að neðan. En aðöllu gamni slepptu þá finnst mér skrítið að sjá viðbrögð sumra bloggverja við þessu. Af því að þetta er jú bara lítið og óþekkt fyrirtæki út á landi. Sem enginn vissi hvað var (nema ég auðvitað, samkvæmt honum Einari) fyrir helgi. Gerir það réttarstöðu þess minni? Getur stóra fyrirtækið í Reykjavík gert hvað sem er í krafti stærðar sinnar og þeirrar staðreyndar að skrifstofur þess eru á höfuðborgarsvæðinu?
Finnst það svipað og að segja að stóri strákurinn megi alveg berja litla strákinn á skólalóðinni bara af því að hann er stærri.
N4 kannar réttarstöðu sína vegna nafns og firmamerkis N1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2007 | 18:33
Nýyrði
Lenti í stökustu vandræðum hér áðan. Var að skrifa grein um myndvinnsluhugbúnað og þurfti að gera það á okkar ástkæra ylhýra. Vandamálið er að ég veit ekkert hver nýyrðin í þessum geira eru. Var þarna að finna upp orð eins og afspilunarkóði fyrir codec, og fjölóma hljóðblöndun fyrir surround mixing. Finnst líka tillaga RÚV um orðið Hlaðvarp fyrir Podcast alveg æðisleg. Hver heldur utan um þetta eiginlega?
Nú er þetta kannski þegar hægt, en ég myndi vilja getað flett upp einhversstaðar á netinu til að sjá tillögur og viðurkennd nýyrði fyrir hina ýmsu tæknihluti. Svona til þess að forðast það að séu allt í einu til milljón mismunandi orð fyrir sama hlutinn, samanber tónhlöðu og spilastokk Moggamanna. Ég kalla þetta nú bara æpodd.
Er þó nokkuð ánægður með orðin mín. Fjölóma finnst mér fallegt orð fyrir surround og litgreining fyrir color grading. Er ekki einhver staður fyrir svona nýyrða pælinga? Og ef ekki, hvernig væri þá að einhverjir tækju sig til og kæmu upp Wiki eða einhverju fyrir þá sem áhuga hafa á íslenskun fagmála.
Nokkari, hóra, péddi, mixer, fresnel, greida, súbb.. Þetta er bara það sem ég mundi eftir á 10 sekúndum..
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2007 | 20:24
Enn ein nafnabreytingin..
Ekki það að ég nenni að fara að röfla vegna þessa, hafandi verið viðskiptavinur KB og Kaupþings, Íslandsbanka og Glitnis og svo framvegis. Hinsvegar finnst mér óhuggulegt hversu logo-um N1, sem áður hét Esso, Bílanaust og eitthvað fleira, og norðlenska fjölmiðlafyrirtækisins N4 svipar saman. N4 er minn gamli vinnuveitandi og því veit ég að það hefur verið til mun lengur en hið varla dags-gamla EnnEinn batterý. Nú spyr maður sig hvort að ekki verði mál úr þessu, og hvor hafi þá betur, Davíð eða Golíat.
- Þegar stórt er spurt
(Svo ég hermi eftir Símoni Birgissyni stjörnublaðamanni sem hermir eftir Denna)
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2007 | 13:21
lágdeyða
Einhver sagði einhverntíman að sá sem ekki væri til á netinu væri ekki til í samfélaginu. Því hef ég víst verið látinn síðastliðiðinn mánuð eða svo. Einhvernveginn bara haft annað að hugsa um býst ég við. Blankheit í marsmánuði, páskar og sófagestir.
Keypti mér bíl. Smart blæjubíll fyrir tvo, með diesel vél og leðursætum. 2004 módel og vélin heil 42 hestöfl. Vá. Snilld samt, okkur kemur mjög vel saman og mér þykir vænt um hann. Hann eyðir sama og ekki neinu, er skemmtilegur í bæði innanbæjar og langkeyrslu og er afskaplega krúttlegur og fallegur. Mjög gott hljóðkerfi líka, sem mér finnst afar mikilvægt í bíl.
Svo komu páskarnir. Þeir voru ekki mjög páskalegir, þó svo að ég hafi tekið mér marga til fyrirmyndar og skellt mér norður. Fór þó ekki á skíði, bara á gömlu góðu karólinu og í Mývatnssveit. Mæli með Grjótagjánni, hún er heit og góð þessa dagana. Kom svo heim á laugardag og fór á djammið í borginni og var spurður um skilríki í fyrsta skipti síðan ég var 16. Páskadagur fór svo í sjónvarpsgláp og heimsókn til gamalla vina, og svo endaði ég helgina í Bláa Lóninu eftir páskadagsmáltíð á McDonalds. Já, það var bara ágætt.
Nú er eitthvað afskaplega lítið í gangi. Ég er í þessu ástandi mínu þar sem ég velti öllu og öllum fyrir mér og reyni að komast að einhverri niðurstöðu í lífinu. Svo gefst ég yfirleitt upp og held áfram lífinu eða ákveð að gera eitthvað róttækt. Sjáum til hvað kemur út úr þessu.
Nú hef ég semsagt vakið mig aftur til lífs í netheimum, setti nýjar myndir inn á Flickr í gær og minni á að ég er til. Góðar stundir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2007 | 11:55
Eldfimt..
Vá, þetta er eldfimt mál. Við hér í Skandinavíu prýðum okkur af því að vera einstaklega umburðarlynd. En viljum við fórna umburðarlyndinu í samfélaginu fyrir umburðarlyndi gagnvart óumburðarlyndu fólki? Tja.
Í hinum afar góða þætti Boston Legal á sunnudagskvöldið tók Alan Shore að sér að verja foreldra tveggja barnungra söngkvenna. "Rise up and shine, Americas sons and daughters" og "Will wash the yellow, brown and red man away" sungu þær, og það átti að taka þær af foreldrum sínum fyrir þær sakir að þær væru aldar upp í rasisma og hatri. Það gekk ekki eftir. Við leyfum fólki að hafa hvaða skoðanir sem það vill svo lengi sem það ofsækir ekki fólk eða beitir það ofbeldi. Ég skil vel að danir hafi áhyggjur. Innflytjendurnir eru að hrista grunninn sem danskt samfélag byggir á, en það að vísa þeim frá vegna skoðana gjörsamlega sprengir grunninn í loft upp. Þetta er eflaust vandamál sem fæst ekki auðveld lausn á, en ég held að eftir tvær eða þrjár kynslóðir verði þetta ekki jafn mikið vandamál. Fólk aðlagast vonandi á endanum, og Danir sem og aðrir munu vonandi muna að gera hið sanngjarna og rétta.
Dönsk yfirvöld setji umburðarlyndinu mörk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2007 | 11:30
ÆðisLEG?
Hugleikur hefur haft lag á því að draga fram spaugilega hlið á annars hræðilegum aðstæðum. Hann nær að kitla hláturtaugarnar með fáránleika, jafnvel sjúkleika, og fær mann um leið til að hugsa. Teiknimyndasögur hans hafa hneykslað marga, en jafnframt náð gríðarlegum vinsældum. Leg, eða Abortion The Musical, eins og það heitir víst á ensku, er ekkert ósvipað. Það hneykslar eflaust marga, og mun sennilega ná gríðarlegum vinsældum.
Myndvarpar og bíóhljóð
Mikið var lagt í allt ytra útlit sýningarinnar, myndabönd, skjávarpar og lýsing spila stórt hlutverk, og fyrir vikið fellur kannski frammistaða leikaranna sjálfra örlítið í skuggann af sjóinu. Hinsvegar er þessi tæknisýning öll alveg frábærlega gerð. Myndvarpar og örlítil þoka í loftinu mynduðu þrívíðan heim sem umlykur áhorfandann og dregur mann inn í þetta litla sjúka framtíðarland. Hljóðeffektar eru líka notaðir á mjög áhrifaríkan hátt, og á stundum leið manni eins og í bíó, þar sem hljóð kom úr öllum áttum og bætti enn frekar á skynfærafestivalið. Hljóð í söngatriðum var þó ekki eins og best verður á kosið. Erfitt var að greina texta sönglaganna í háværari númerum, og misgóður söngur leikaranna drukknaði í tónlistinni.
Fjölbreytt tónlist
Þá er að minnast aðeins á frammistöðu leikaranna ungu. Þar mæddi mest á hinni lítt þekktu Dóru Jóhannsdóttur, í hlutverki óléttu táningsstúlkunnar Kötu. Hér er greinilega komin leikkona sem vert er að fylgjast náið með. Leikararnir standa sig þó allir prýðilega, en persónurnar eru einfaldar og ýktar. Veiki hlekkur leikarahópsins er án efa söngurinn, en söngnúmer voru sum hver leyst með einskærum viljastyrk og ópi. Það er reyndar algengt í íslenskum söngleikjum.
Tónlistin var þrátt fyrir misjafnan söng afar fjölbreytt og skemmtileg. Meðlimir tríósins Flís eru þúsundþjalasmiðir og jafnvígir á teknó og jazz. Lögin voru skemmtileg, melódísk og koma vonandi út á geisladisk svo hægt sé að njóta þeirra utan leikhússins.
Hugleikur fæst við meinsemdir þjóðfélagsins í þessu verki eins og hans fyrri verkum. Í einstakri yfirborðsmennsku sýningarinnar, leikmyndar, persóna og umgjarðar, verður boðskapurinn skýr. Hvar annarsstaðar en á Íslandi er hægt að finna hið fullkomna siðlausa Leg? En eins og í söngleikjum er von; von um betri heim og betra Ísland. Leg er eiginlega skylduáhorf. Kannski vegna þess að þetta er drepfyndin og góð sýning sem á erindi við fólk, en annars vegna þess að þetta gæti verið eina skiptið sem þú munt sjá eitthvað þessu líkt á leiksviði.
8.3.2007 | 11:50
Killer Joe
Við skyggnumst inn í líf bandarískrar lágstéttarfjölskyldu í Dallas. Áfengi, ofbeldi og fíkniefni setja sinn svip á heimilislífið, en það breytist allverulega þegar að peningadraumar koma þeim í kynni við leynilögregluna og leigumorðingjann Killer Joe. Þar fer í gang atburðarrás sem er allt í senn fyndin, spennandi og grafalvarleg.
Látlaus umgjörð
Það sem slær mann fyrst við verkið er áhrifamikil og afar vel gerð leikmynd Vytautas Narbutas. Hún hæfir sögunni fullkomlega og býr til sannfærandi og tilfinningaþrunginn bakgrunn fyrir söguna. Hún nýtur sín aukinheldur afar vel í mikilli nálægð við áhorfendur á litla sviði Borgarleikhússins. Með minimalískri og kaldri lýsingu Lárusar Björnssonar og tónlist Péturs Ben er hér komin umgjörð sem styður við verkið án þess að draga athyglina frá sögunni sjálfri eða leiknum.
Leikurinn er þó það sem að best er heppnað í sýningunni. Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikur drenginn Chris, viðkunnanlegann en stórskemmdann. Það gerir hann afar vel og sýnir það og sannar að hann er einn af okkar helstu rísandi stjörnum á leiksviðinu. Þröstur Leó á ekki erfitt með að leika sóðalega fjölskylduföðurinn Ansel þannig að áhorfandinn bæði fyllist viðbjóði og meðaumkun, enda reynslubolti og öldungurinn í hópnum. Maríanna Clara sýnir það og sannar að ekki eingöngu er hún ein okkar fremsta gamanleikkona, heldur einnig hörkufín í dramatíkinni. Björn Thors var svo ógnvekjandi Killer Joe, með stingandi augnaráð og fullur hroka. Toppurinn var þó frammistaða Unnar Aspar í hlutverki hinnar einföldu Dottie, tvímælalaust stjarna sýningarinnar og náði að grípa mann svoleiðis að undirritaður hefur ekki upplifað annað eins í íslensku leikhúsi lengi.
Grípur og heldur
Sýningin rígheldur áhorfendum í tilfinningaflóði gleði, spennu, viðbjóðs og viðundran, en ekki síst húmor, því að þrátt fyrir alvarlegt eðli verksins er það uppfullt af góðum húmor, og brast salurinn í hlátur á undarlegustu stöðum. Þetta er ein af þessum frábæru og fáu leiksýningum sem að áhorfendur munu seint gleyma. Nokkuð er um ofbeldi og kynferðisleg atriði í verkinu. Stróbljós og músík voru notuð á snjallann hátt til að undirstrika bilaða veröld og atriðin svínvirkuðu án þess að fara yfir strikið. Listamönnunum sem hér komu að tókst að skapa leikhús á heimsmælikvarða og því ber að fagna.
Þýðingin veikur hlekkur
Það sem hinsvegar dregur sýninguna niður úr fullu húsi stiga er klaufaleg þýðing, en hún var í höndum leikstjórans Stefáns Baldurssonar. Talsmáti hinna vitgrönnu persóna líktist meira menntaskólakennara í Grafarvogi en lágstéttarkrakka í Suðurríkjunum. Kannski hefði hreinlega átt að ráða slangurs-ráðunaut. Að heyra 22 ára dópista í rifnum fötum segja orð sem ekki eru í daglegri notkun hjá neinum undir fertugu er bara einhvernveginn ekki rétt og dregur úr trúverðugleika. Annars er þetta smávægilegur galli á annars frábærri sýningu. Áhorfendur stigu út úr salnum dolfallnir eftir vægast sagt óvæntan endi og Killer Joe hefur án efa stimplað sig inn sem ein af bestu sýningum ársins 2007.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)