Færsluflokkur: Bloggar
27.2.2007 | 17:11
Fjölmiðlabindindi?
Þessi pistill minn birtist í Blaðinu síðastliðinn föstudag:
Hvenær er nóg komið?
Ég er hættur að reyna. Það er ekki nokkur leið að ég geti fylgst með fimm dagblöðum daglega. Sjálfsagt að bjóða upp á valkosti, en kannski er þetta fullmikið. Er með 70 sjónvarpsstöðvar, og get eytt heilu kvöldi í að skipta á milli rása án þess að finna eitthvað gott. Fæ þrenn dagblöð inn um lúguna, og get ekki ákveðið á hverju ég á að byrja svo ég les ekki neitt.
Þegar ég var lítill var ég heppinn af því að það var áskrift að Stöð2 á heimilinu. Ég gat valið um tvennt. Það var meira en nóg. Við fengum bæði Moggann og Dag. Það var meira en nóg. Ég er feginn því að vera það gamall að ég man eftir þessum tímum.
Þegar maður fylgist allan daginn með því sem er að gerast í heiminum, les fimm dagblöð og fylgist með hátt í tíu íslenskum sjónvarpsstöðvum auk þess að vinna fullan vinnudag hefur maður ekki tíma til að hugsa um sjálfan sig.
Ætla að prófa fjölmiðlabindindi. Slökkva á nettengingunni og afruglaranum og negla fyrir bréfalúguna. Það á eftir að taka mig smá stund að komast yfir verstu fráhvarfseinkennin, en hvað gerist svo?
Þess má geta að fram að þessu hefur bindindið ekki gengið vel.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 12:02
Er þetta virkilega að gerast?
Ótrúlegur heimur sem við lifum í. Ég sem hélt í einfeldni minni að við værum fyrir löngu hætt að sjá hluti eins og að ríkisstjórnir séu að skipta sér af verkum myndlistarmanna. Ég virði The Indenpendent fyrir þessa forsíðu sína. Það er greinilegt að ríkisstjórnir heims skammast sín fyrir Írak. Með réttu.
Nú er það okkar hlutverk að reyna að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig í nágrannalandinu Íran. Nú ríður á að við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar. Erfitt getur reynst að hafa áhrif á Bandaríkjamenn, en við getum í það minnsta séð til þess að Ísland styðji ekki endurtekningu óhugnaðarins. Ákvarðanir okkar í kjörklefanum í maí geta haft á það mikil áhrif.
Svo er mér spurn hvort að myndlistarmaðurinn Steve McQueen sé eitthvað skyldur leikaranum og ofurtöffaranum Steve McQueen?
Varnarmálaráðuneyti Breta hindraði störf myndlistarmanns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2007 | 00:07
Versló kemur á óvart
Verslingar hafa síðastliðin ár sérhæft sig öðrum framhaldsskólum fremur í því að setja upp íburðarmikla söngleiki, og í ár er engin undantekning á þeirri hefð. Söngleikurinn Sextán var frumsýndur í Austurbæ þann 1. febrúar á 75. nemendamóti Verslunarskólans, og er framhaldsskólasöngleikur í bókstaflegri merkingu. Verkið fjallar um Hólmfríði Júníusdóttur, og 16 ára afmælisdaginn hennar. Hún er dæmigerður íslenskur unglingur, og þarf að kljást við lúxusvandamál slíks. Enginn í fjölskyldunni man ekki eftir afmælinu, enda öll upptekin við undirbúning brúðkaups eldri systurinnar. Og ekki bætir úr skák að fyrsta ballið hennar í Versló er þá um kvöldið. Og þar verður draumaprinsinn, þriðja árs neminn Benóní. Bólur, fegurðardrottningar og egyptar virðast ætla að klúðra kvöldinu, en, eins og í góðum söngleik fer allt vel að lokum. Söngleikir Versló hafa kennt sig við þá ætt leiklistarinnar sem dæmir gæði út frá fjölda litaðra hreyfiljósa í loftinu og styrk hljóðkerfisins. Það hefur sýnt sig að það er ekki svo vitlaus markaðsfræði. Froðukenndir söngleikir á borð við Fame, Footloose og Hárið hafa dregið mikið fleiri í leikhús heldur en Dario Fo og Ibsen.
Því er ekki hægt að dæma verkið út frá öðru en það er. Flott "show" með glæsilegri ljósasýningu, reyk, flottum dönsurum og fimmaurabröndurum. Þunnur söguþráðurinn er tengdur saman með klassískri íslenskri tónlist, allt frá Björgvini Halldórs og Stuðmönnum til og með Jeff Who? og Quarashi, sem að vísu er öll spiluð af bandi. Öll hlutverk eru skipuð nemendum, en þau hafa með sér landslið atvinnufólks í leikhúsbransanum sem sér til þess að þetta gangi allt saman vel fyrir sig. Krökkunum ungu, undir styrkri leikstjórn Selmu Björnsdóttur og Rúnars Freys tekst hið erfiða verk furðuvel, að halda salnum spenntum í gegnum alla sýninguna. Ólöf Jara Valgeirsdóttir í hlutverki Hófíar geislar á sviðinu þó að lítil sé, og vinkonur hennar, leiknar af Vigdísi Sverrisdóttur, og öðrum sem ég náði ekki að þekkja í leikskránni(hefði verið erfitt að birta alvöru leikendaskrá?) eru sannfærandi og stórskemmtilegar, þó svo að Vigdís hafi staðið upp úr í þeim hópi. Benedikt Valsson er hinn týpíski góði gæji sem draumaprinsinn Benóní. Hann er greinilega fínn leikari og leysir sín söngnúmer með glæsibrag, eins og reyndar þau flest. Sigurbjörg Alma Ingólfsdóttir leikur erkióvin Hófíar, ofurljóskuna Alfí, og á meðan hún var ágæt í leikatriðum var hún síðri í söngnum. Uppáhaldið mitt í þessari sýningu var þó hinn ofvirki og ágengi Goggi, leikinn af Sigurði Þóri Óskarssyni. Sigurður er sem skapaður fyrir sviðið, fimur og skýrmæltur, og er ég alveg viss um að það eigi eftir að sjást meira af þessum dreng á sviði í framtíðinni. Tæknileg atriði sýningarinnar voru eins og frammistaðan á sviðinu fagmannleg og pottþétt. Allar skiptingar gengu mjúklega og hratt fyrir sig, sem skiptir miklu máli í jafn hraðri sýningu og þessari. Lýsingin var dæmigerð rokktónleikalýsing, og hefði mátt leggja meira í sviðs lýsingu. Mér finnst alltaf hálf leiðinlegt að sjá ekki það sem er að gerast fyrir útfjólublárri og neonbleikri baklýsingu sem gleypir allt, en er þó fullviss um að það hafi verið gert með vilja. Allt í allt, fannst mér þessi sýning á allann hátt jafnast fyllilega á við þá söngleiki sem t.d. 3 Sagas hefur verið að setja upp síðustu ár með fagmönnum í öllum hlutverkum. Það segir mikið um þann gífurlega metnað og kraft sem að nemendur Verslunarskólans setja í sýningarnar og nemendamótið. Það er ekki langt síðan ég var sjálfur í framhaldsskólaleikfélagi, og ég veit því að á meðan á undirbúningi stendur reka nemendurnir fyrirtæki sem veltir milljónum. Húsfyllir af ánægðum áhorfendum er því merki um að þeir hafi unnið verk sitt með stakri prýði.
Áhorfendur, sem virtust vera að meirihluta til krakkar á aldrinum 11-16 ára, skemmtu sér nefnilega konunglega. Og ég og mömmurnar fjórar við hliðina á mér skemmtum okkur mjög vel líka, þó svo við kannski hefðu hlegið á öðrum stöðum en þau yngri. Það er jú tilgangurinn með þessu öllu, og það að krökkunum hafi tekist að senda mig syngjandi og glaðan út, með alla mína fordóma gagnvart Versló og söngleikjum, er tilefni til að mæla með verkinu við alla þá sem eru að leita að góðri skemmtun sem ekki krefst vits og hugsunar. Sýningin stóð fyrir sínu, og stelpa sem sat ekki langt frá mér sannaði það þegar að ljósin komu upp; "Oh, er það búið?" Sýningar standa yfir í Austurbæ og nánari upplýsingar má fá á http://www.sextan.is.
Bloggar | Breytt 27.2.2007 kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)