15.10.2007 | 13:20
Kalifornískun
Ó, það jafnast ekkert á við að enda helgina upp í sófa í félagsskap gosflösku, snakks og sjónvarpsskjás. Þynnkan eftir laugardagskvöldið vonandi horfin og sjónvarpið fullkomin leið til að taka hugan frá þeirri staðreynd að það er heil vinnuvika framundan.
Nýlega byrjaði Skjár einn að sýna þættina Californication á sunnudagskvöldum. Það er gott því að eftir að Top Gear og Boston Legal hættu hafa sunnudagskvöldin verið hálf ónýt hjá mér. Þessir þættir eru náttúrulega bara snilld. Mulder sjálfur, David Duchovny sýnir góða takta sem Hank, rithöfundur sem þjáist af alvarlegum sjálfsmyndarvandræðum sem hann leysir með áfengi, dópi og kynlífi. Glöggir áhorfendur kannast svo eflaust við Madeline Zima í hlutverki Lolitu-týpunnar Miu Gross, sem síðast sást sem lítil stelpa í þáttunum um barnfóstruna Fran Fine. Ekki svo saklaus lengur.
Heimur versnandi fer, og hreinskilni Hanks, sem segir það sem honum sýnist og gerir það sem honum sýnist er hreint út sagt hressandi. Hann gefur skít í samfélagið í kring um hann og einbeitir sér að því að fullnægja villimannslegum hvötum sjálfs síns. Hann er reyndar stórskemmdur og sennilega þunglyndur, og er búinn að brenna allar brýr að baki sér, en virðist ná að halda sér nokkuð heilum. Vinsældir þáttanna felast að mínu mati í því að Hank er allt sem við vildum að við gætum leyft okkur að vera. Nútíma hippi sem gefur skít í kerfið og veður í konum.
Þetta er fínn endir á helginni. Svo tekur raunveruleikinn við.
Athugasemdir
Jamm ég bendi nú einu sinni enn á pottþétta leið til að forðast timburmenn en býst ekki við að að á því verði tekið mark frekar en fyrri daginn:) Mér finnst virka óspennandi að horfa á mann sem einbeitir sér að því að fullnægja eigin hvötum en gefur skít í aðra. Nútíma hippi?Hljómar sem egosentriskur auli sem aldrei komst af fimm ára skeiðinu. Er eiginlega allt sem maður óskar sér að verða ekki. En kannski verð ég að horfa á þáttinn áður en ég dæmi:)
Inga Dagný Eydal, 15.10.2007 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.