Killer Joe

author_icon_8625 Vissi ekki á hverju ég átti von á þegar ég fór á frumsýningu Killer Joe á fimmtudaginn síðastliðinn, en ég held að ekkert hefði getað undirbúið mig fyrir þá leikhúsupplifun sem beið mín. Þetta var fyrsta leikrit höfundarins Tracy Letts og vakið mikla athygli hvar sem það er sýnt. Og virðist sem Ísland verði engin undantekning á því.
Við skyggnumst inn í líf bandarískrar lágstéttarfjölskyldu í Dallas. Áfengi, ofbeldi og fíkniefni setja sinn svip á heimilislífið, en það breytist allverulega þegar að peningadraumar koma þeim í kynni við leynilögregluna og leigumorðingjann Killer Joe. Þar fer í gang atburðarrás sem er allt í senn fyndin, spennandi og grafalvarleg.
Látlaus umgjörð
Það sem slær mann fyrst við verkið er áhrifamikil og afar vel gerð leikmynd Vytautas Narbutas. Hún hæfir sögunni fullkomlega og býr til sannfærandi og tilfinningaþrunginn bakgrunn fyrir söguna. Hún nýtur sín aukinheldur afar vel í mikilli nálægð við áhorfendur á litla sviði Borgarleikhússins. Með minimalískri og kaldri lýsingu Lárusar Björnssonar og tónlist Péturs Ben er hér komin umgjörð sem styður við verkið án þess að draga athyglina frá sögunni sjálfri eða leiknum.
Leikurinn er þó það sem að best er heppnað í sýningunni. Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikur drenginn Chris, viðkunnanlegann en stórskemmdann. Það gerir hann afar vel og sýnir það og sannar að hann er einn af okkar helstu rísandi stjörnum á leiksviðinu. Þröstur Leó á ekki erfitt með að leika sóðalega fjölskylduföðurinn Ansel þannig að áhorfandinn bæði fyllist viðbjóði og meðaumkun, enda reynslubolti og öldungurinn í hópnum.  Maríanna Clara sýnir það og sannar að ekki eingöngu er hún ein okkar fremsta gamanleikkona, heldur einnig hörkufín í dramatíkinni. Björn Thors var svo ógnvekjandi Killer Joe, með stingandi augnaráð og fullur hroka. Toppurinn var þó frammistaða Unnar Aspar í hlutverki hinnar einföldu Dottie, tvímælalaust stjarna sýningarinnar og náði að grípa mann svoleiðis að undirritaður hefur ekki upplifað annað eins í íslensku leikhúsi lengi.
Grípur og heldur
Sýningin rígheldur áhorfendum í tilfinningaflóði gleði, spennu, viðbjóðs og viðundran, en ekki síst húmor, því að þrátt fyrir alvarlegt eðli verksins er það uppfullt af góðum húmor, og brast salurinn  í hlátur á undarlegustu stöðum. Þetta er ein af þessum frábæru og fáu leiksýningum sem að áhorfendur munu seint gleyma. Nokkuð er um ofbeldi og kynferðisleg atriði í verkinu. Stróbljós og músík voru notuð á snjallann hátt til að undirstrika bilaða veröld og atriðin svínvirkuðu án þess að fara yfir strikið. Listamönnunum sem hér komu að tókst að skapa leikhús á heimsmælikvarða og því ber að fagna.
Þýðingin veikur hlekkur
Það sem hinsvegar dregur sýninguna niður úr fullu húsi stiga er klaufaleg þýðing, en hún var í höndum leikstjórans Stefáns Baldurssonar. Talsmáti hinna vitgrönnu persóna líktist meira menntaskólakennara í Grafarvogi en lágstéttarkrakka í Suðurríkjunum.  Kannski hefði hreinlega átt að ráða slangurs-ráðunaut. Að heyra 22 ára dópista í rifnum fötum segja orð sem ekki eru í daglegri notkun hjá neinum undir fertugu er bara einhvernveginn ekki rétt og dregur úr trúverðugleika. Annars er þetta smávægilegur galli á annars frábærri sýningu. Áhorfendur stigu út úr salnum dolfallnir eftir vægast sagt óvæntan endi og Killer Joe hefur án efa stimplað sig inn sem ein af bestu sýningum ársins 2007.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

til hamingjumed daginn um daginn

katla (IP-tala skráð) 12.3.2007 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband